Sá, sem ekki kann að hata, getur ekki elskað
--Voltaire
Mikið er þetta búin að vera einkennileg helgi, það sem af er og spilar þar stóran þátt inn í að við hér í Mávahlíð 9 höfum ekki haft sjónvarp síðan á föstudagsmorgni. Það setur strik í reikninginn hjá mörgum, sérstaklega okkur Alla:-/ Við horfðum tómlega á hvort annað til klukkan átta í gærkvöldi, lásum og spjölluðum... en fengum svo
nóg af hvort öðru, allt stefndi í riflildi með tilheyrandi öskrum og eftirsjá. Við fórum loks í Bónusvídejó og fengum okkur Austin Powers
Goldmember ... gaman, gaman. Svo fékk ég fría með Independance Day, en Alli var svo lítill þegar hún var sýnd að ég ákvað að hann yrði að sjá þessa snilld.. he he he. Hún hefur að bera geimverur og framtíðartækni og því í svolitlu uppáhaldi hjá mér, hún hefur einnig að geyma
Will Smith og húmor og því hitti hún í mark hjá Alla. Við horfðum svo stjörf á þessar myndir til 01:43 (tímasetningar fengnar frá Alla), sváfum ,,út" og litum nýjan dag með bros á vör og gleði í hjarta. Nútíma vísitölufjölskyldan fór svo upp í Bláfjöll að renna sér á sleðum og rassaþotum, þessi nútímaskilgreining á vísitölufjölskyldunni felur í sér eftirfarandi og fór dagurinn svona fram:
1) Þarna er á ferð
einstaklingur sem er að ala upp barn (,,einstæð móðir/faðir"-önnur skilgreining en felur í sér að uppalandinn er aumingi sem lifir á kerfinu-ATH!!! Það á
ekki við um þennan einstakling).
2) Eitt barn er á framfæri þesarar manneskju og er það barn með einhverja greiningu á einhverjum samskipavandamálum í fortíðinni -þetta barn er með í för.
3) Eitt barn er fengið reglulega ,,að láni" sem er einnig alið upp af einstaklingi sem hefur óhefðbundið sambúðarform, þ.e. í sambúð með manneskju sem er einnig skilin og á börn fyrir-þetta barn er einnig með í för.
4) Farartækið er 9 ára gömul Toyota, ekin 120.000 km að mestu leyti á 95 okt. bensíni, en stundum þegar vel árar ,,splæsir" eigandinn V-Power á bifreiðina, svona rétt til að gera vel við hana og friða samviskuna því þessi bíll fer aldrei í ryðvörn né þvott.
5) 5 samlokur eru með í för,
Heimilisbrauð sem öllum Íslendingum finnst svo gott og uppfyllir allar þarfir þeirra (hummmmm... hef reyndar ekki orðið vör við það;-( ). 3 samlokur með túnfiskssalati og tvær með skinku og
osti. Einstaklingurinn, barnið með samskiptaerfiðleikana og hitt barnið sem á foreldrana í óhefðbundna sambúðarforminu borða þó ekki þessar samlokur þrátt fyrir að áleggið sé ferskt og brauðið enn nýrra.
6) Einstaklingurinn reynir að segja börnunum frá ýmsu markverðu og sögulegu sem fyrir augu ber á leiðinni upp í
Bláfjöll. Einstaklingurinn hefur þó aldrei komið þangað sjálfur og reynir að villast ekki (enda utan af landi og því mjög gjarn á að týnast/villast). Börnin heyra ekki það sem einstaklingurinn er að segja og reyna að yfirgnæfa hann með því að tala um svindl sem hægt er að gera í
Warcraft III Reign of chaos. ... somþíng;-/
7) Þegar upp í Bláfjöll er komið fara börnin að renna sér á sleðunum meðan einstaklingurinn fær sér kakó í notalegum þjónustuskála og les
þjóðhagfræði, náttúran beint í æð, ójá;-)
8) Eftir um 3ja kortera útiveru skipar einstaklingurinn börnunum inn í skálann, enda eitthvað svo óðelilega rjóð í kinnum þessi
börn og undarlega heit... líklega komin með hita og splæsir kakói á börnin. Einstaklingurinn fær símtal frá nágranna sínum sem tilkynnir honum það að honum sé best að drífa sig á malbikið og opna fyrir sjónvarpsloftnetsgæja einum sem ætlar að laga loftnetið (sem er á þakinu, eins og hjá svo mörgum) og freista þess að fixa í leiðinni félgaslífið í þessu tiltekna húsi.
9) 45 mínútum síðar gerist slys sem hefur svolítið ánægjulegar afleiðingar í för með sér, fyrir einstaklinginn. Barn hennar sem býr við samskiptaerfiðleika, en er þó elskað í hvívetna þrátt fyrir að halda með Liverpool, lendir í sannkölluðu samstuði við brettagæja einn sem er einnig þarna í þeim erindagjörðum að viðra sig og úlpuna sína. Barnið meiddist ei, sem betur fer, því annars hefði þessi brettagæji kynnst því hvaða hjúkrunarkona er á bráðavakt Landspítalsns þann daginn (einstaklingurinn ver afkvæmi sitt með kjafti, klóm og svikulum uppá-komum/förum). Barnið, einstaklingurinn og lánsbarnið halda brott frá Bláfjöllium með brotin sleða, óvirkan sleða og kafla 2 lesin í þjóðhagfræði.
10) Komið var við í Kringlunni og keypt í matinn, ekkert markvert gerðist þar og komust þessar manneskjur klakklaust frá þeirri ferð.
11) Einstaklingurinn lagði sig er heim var komið og lét börnin ein um að leika sér í herbergi einu sem er sérstaklega innréttað til þess, enda hafði einstaklingurinn keypt sælgæti fyrir 445 krónur handa börnunum og því áunnið sér rétt til 35 mín leggingar.
12) Þegar einstaklingurinn vaknaði var hann í brjáluðu skapi, eins og gerist alltaf þegar hann leggur sig á daginn en hann gleymir alltaf. Skipar hann börnunum að hjálpa sér að tæma skáp einn við hliðina á ísskápnum svo loftnetsgæjinn kæmist að magnaranum og blandaranum, þannig að hægt væri að horfa á sjónvarpið þá um kvöldið. Guð hjálpi hverjum Íslendingi að sleppa frá einu laugardagskvöldi án þess að horfa á Spaugstofuna! Börn hjálpa til svolítið ringluð á svip og einstaklingur fær samviskubit;-/ Hrósar börnum og hemur skap sitt svo þau þekki hann fyrir sömu manneskju/einstakling.
13) Loftnetsgæji mætir á staðinn, kíkir á magnarann og blandarann og úrskurðar að ekki sé það málið... hann verði að komast upp á þak til að skoða örbylgjuloftnetið sjálft. Eftir miklar pælingar og bollaleggingar þá er útséð um örugga aðferð fyrir gæjann (reyndar 45 ára gamall hálfsköllóttur karlmaður, en afar viðkunnarlegur með skemmtilegan húmor) að komast út á þakið. Í gegnum Velux-gluggann böslast hann og rennur svo til á nýjum þakplötum einstaklingsins, aumingjans maðurinn í lífshættu og hann sem er að vinna á svörtu;-( Hann kemur inn aftur og tilkynnir að hann verði að nota stiga, nær í hann og þau erum ásátt um að hann vilji ekki bálför, heldur hefðbundna jarðaför:-) Aftur bögglast hann út á þak, einstaklingurinn réttir honum stigann og hann baukast þarna eitthvað, kemur svo inn aftur segir að fúskarar hafi verið á ferð á undan honum (humm, einstaklingurinn kannast við að hafa heyrt þetta áður...) og að hann verði að fara heim með loftnetið og laga það þar, kæmi um kvöldið aftur. Fer hann og einstaklingurinn biður börnin fallega, með ákveðnum tóni í röddinni þó, að hjálpa sér að setja skápinn á sinn stað og raða í hann. Skápurinn er nefnilega með tvær lausar lappir undir sér, sem detta alltaf undan þegar skápurinn er færður til.
14) Faðir barns með foreldra sem eru með óvenjulegt sambúðarform kemur með pc-tölvu barnsins. Hann er leynilögga og góður maður, betri vinur en óvinur (þessvegna hefur einstaklingur lagt sig í líma við að vera með enga óreglu þegar þetta barn er á heimilinu, nema fyrir utan þessa einu sumarbústaðarferð... en það er önnur saga).
15) Hátíðamatur er borðaður við notalega stund í Mávahlíð 9 og vaskar einstaklingurinn upp strax á eftir en geymir það ekki eins og venjulega. Von var nefnilega á gestum um kvöldið, fyrir utan stórskemmtilega loftnetsmannin sem vildi láta grafa sig;-)
16) Blogg byrjar... umm... svona um áttaleytið?
17) Logftnetsgæji mætir á svæðið og einstaklingur ákveður að hella upp á kaffi til hátíðarbrigða, enda ekki á hverjum degi sem karlmaður fer tvisvar á þ(b?)akið hjá honum;-) Loftnetsgæji ítrekar að hann vilji láta grafa sig og lofar einstaklingur því að borga kistuna, enda farin að hafa slæma samvisku og finnst eins og loftnetið sitt sé öðruvísi en önnur loftnet og erfitt að gera til hæfis. Gæji kemur af þaki, kalin mjög og fær sér kaffisopa. Einstaklingur fræðist býsnin öll um magnara, blandara, loftnet, standara og leiðslur ýmisskonar. Engin mynd kemur og vill einstaklingur fara til nágranna til að fullvissa sig um að það sé ekki bara hans sjónvarp sem er með stæla og snjókomu. Alls við það sama þar, svo loftnetsgææji vill skoða bak við skápinn... úfff.... einstaklingur biður börn um aðstoð og gæji hjálpar til. Gæji fiktar í öllum hnöppum og tökkum, leiðslum og vírum, en ekkert gerist;-( Gæji klórar sér í hausnum meðan einstaklingur hlær taugaveiklað, enda næsta skref óráðið og óvissan mikið. Hann afræður að koma daginn eftir og hafa þá einhverjar ofurgræjur með og einstaklingur sér fram á að þurfa að gera eitthvað annað en að horfa á My Giant með börnunum um kvöldið. Einstaklingur ákveður að blogga um þennan dag og hefur gert það hér með. Úff.....