Halló heimur - ég er fædd!

Já, komið þið blessuð og sæl - ég er loksins mætt! Mamma missti vatnið eftir miðnætti aðfaranótt miðvikudagsins og fór hún með sjúkrabíl niður á fæðingardeild því ég var ekki búin að skorða mig í grindinni hennar. Og þar sem ég ætla greinilega að vera mikið hrekkjusvín þá ákvað ég að gera svo ekki neitt meira... tíminn leið og beið og engir verkir hjá mömmu minni, bara samdrættir og hélt hún að hún væri svona mikill töffari að hún fyndi bara enga verki. Ennþá var útvíkkun bara 2 svo hún Guðrún ljósmóðir setti upp stíl kl. 09 um morguninn til að koma ferlinu af stað. Þá sofnaði mamma mín bara og svaf til hádegis - enda hafði hún vakað alla nóttina með fiðrildi í mallanum af spenningi. Svo var ákveðið að gefa henni bara dripp til að koma öllu í gang og fékk hún fyrst bara eitthvað smá til að athuga hvort eitthvað færi ekki að gerast. Guðrún Eggerts sem er yfirljósmóðir á Landsanum var hjá okkur þá vaktina og sat með mömmu og pabba og passaði vel upp á okkur mæðgur, alveg fræbært að hafa eina svona sem þekkir okkur og hefur fylgst svolítið með bumbunni okkar. Guðrún ákvað að auka drippið um klukkan þrjú, en hún hætti að vinna kl. fjögur - en þegar hún fór var mömmu l o k s i n s farið að verkja en útvíkkunin var orðin 5 kl. 16:15 og mamma bara að bilast úr sársauka. Þá var ákveðið að þetta væri kannski svolítið mikið af drippi fyrst mamma var ,,hrokkin í gang" eins og ljósurnar kölluðu það... mamma sem var eitthvað að monta sig af töffaraskap og háum sársaukaþröskuldi - bara lá og emjaði og var næstum farin að grenja... en hún vissi að fyrst allt var farið af stað þá væri hver hríð eins og lítið skref í áttina til mín. Hún var búin að ákveða að fara í pottinn og prufa nálarstungur, glaðloftið var ekki að virka hjá henni því henni fannst hún bara vera grænlenskur togarasjómaður á búllu í Húll... ruglaði bara og varð full og það er ekki þannig sem maður vill taka á móti barninu sínu, ónei... þannig að mamma bara ætlaði að prufa pottinn og nálarstungur og eitthvað svona ,,vinstri grænt" eins og mamma kallar það. En heyriði... ég bara var ekkert að nenna að láta hana gera eitthvað svoleiðis, takk fyrir takk. Fyrst ég var lögð af stað þá stoppaði mig ekkert! Og það á þessum hraða! Mamma fékk rembingstilfinningu hálftíma seinna, eða korter í fimm og átta mínútum og fjórum rembingum síðar skaust ég út - og pabbi náði að taka á móti mér! Þetta var alveg með þvílíkum ólíkindum og ég verð nú bara að segja eins og er... mér finnst mamma mín mun sætari að utan en innan!
Hér er svo ein af mér og foreldrum mínum rétt eftir að ég kom úr ofninum - mamma segir að það sé rauðleitur blær á hárinu á mér en pabbi bara hlær að því að segir að það sé bara ljósbrúnt...

Og hér er ég hætt að gráta í fyrsta sinn - verið að fara að vikta mig og mæla á allan hátt... ég reyndist vera 3,875 grömm eða rúmar 15 og hálf mörk og 52 cm... ekkert lítið flott!