Ég er skríll!
Þegar lætin byrjuðu í gær þá huxaði ég með mér - æji, fokkit, nenni ekki að mæta fyrir fimm mínútur. Svo varð ég þægilega hissa þegar ég sá að ég gat horft á beina útsendingu frá atburðunum á meðan ég þurrkaði af og sinnti almennum heimilisstörfum. Var hissa þegar ég fór í skólann og sá að þetta var ennþá í gangi, varð ennþá meira hissa þegar ég kom heim og lætin vor ekkert að minnka - magnast ef eitthvað var. Um klukkan hálfellefu leit ég á þetta sem skilaboð að ofan þess efnis að fyrst þetta væri ennþá í gangi, væri verið að gera sem flestum kleift að mæta - svo ég gallaði mig upp, dró upp pott, lok, vettlinga og trefil og strunsaði af stað. Kom við á Hressó til að hitta vinina og færði þeim fréttir af stuðningseldinum á Akureyri og mentum göngum úr alþingishúsinu... svo var arkað af stað, barið, öskrað, hrópað, dansað... mikið var þetta fín útrás sem ég fékk þarna - stemmningin var svakaleg og allir í einum takti - eða fleirum, það skipti ekki máli, það voru allir að góla og í sömu ,,hjarðhegðun" eins og einn útrásardrengurinn kallar það.
Mig langar til að vita eitt - hvaða göng eru þetta á Kirkjustræti úr alþingishúsinu sem þingmenn flúðu um í gær? Og hver sat við stjórnvölinn hjá löggunni þegar hún hóf að berja mótmælendur og hrinda gömlum konum í runna? Ein sem er með mér í skólanum sagði okkur frá því að fyrrverandi sambýlingur hennar hefði verið puttabrotinn af sérsveitinni og ,,meisaður" án tilefnis - en hann var að gæjast yfir alþingisgarðinn og hélt sér bara í brúnina. Puttabrotinn af kilfu sérsveitamanns og meisaður, takk fyrir - hann var náttlega pottþétt rosalega hættulegur :-/ Það er alveg ljóst að við erum bara rétt að byrja að læra að mótmæla, við þjóðin, og þar af leiðandi er löggan og sérsveitin bara rétt að læra að höndla mótmælendur... en fyrr má ná rota en dauðrota! Í gegnum öll mótmælin (og þ.m.t. mótmæli vörubílstjóra f.h. (fyrir hrunið)) hefur lögreglan og sérsveitin alltaf verið gagnrýnd fyrir harðræði... hvað þýðir það eiginlega...? Er þá ekki eitthvað til í því? Þegar æ ofan í æ kemur sama tuggan fram?
Svo er það náttlega stóra spurningin: hvenær ætla þessir háttvirtu menn sem eru í ríkisstjórninni að taka eyrnatappan úr sér og skilja að við viljum ekki hafa þá við stjórn á slökkvibílnum? Við vitum að það er bara ennþá verið að dreifa ryki yfir skítinn sem er sópað undir teppið svo ekki komist upp um alla þessa óráðsíu og vinagreiða sem var við lýði f.h. (fyrir hrun)... við vitum þetta allt... það er bara ekkert verið að hlusta :-/
Ég ætla að gefa skít í skítinn heima hjá mér, þvottinn og rykið - það fer ekki neitt... ég ætla að skella mér niður í bæ að reyna að láta þessa stjórn heyra í mér - ekki fyrir mig ... heldur fyrir börnin mín - nútíðin er mín en framtíðin er þeirra...
Hvar verður þú?