Sorg og gleði og allt í bland...
Elsku Alex Skúli er kominn aftur á spítalann því læknadrullurnar gerðu skelfileg mistök og vangreindu sárin á honum þegar hann var settur í gips. Þeir gleymdu að það voru sár hjá brotinu sem þurftu að anda til að gróa og þar sem hann var settur í plastgips þá greru þau ekki, heldur bara byrjuðu að deyja... og núna er hann kominn aftur á spítalann og verður þar í amk 3 vikur - vona bara að hann komist út fyrir jól - því hvað er verra en að spítalamatur á aðfangadag...? Hann fer líklegast í aðgerð eftir helgi en er meðhöndlaður eins og brunasjúklingur þangað til, plokkað reglulega í sárin og dauð húð fjarlægð. Hann ber sig samt ótrúlega vel, eins og honum er einum lagið og æðruleysið er alveg ótrúlegt hjá þessari elsku, hann er svo mikið yndi og er bara eins og gömul sál í þessum unga brotna kroppi... :-)
Annars réð annað áfall yfir fjölskylduna þann 11. þessa mánaðar, en þá dó afi minn, Arinbjörn Kúld. Hann var orðinn 96 ára gamall svo það mátti alveg búast við þessu, en þegar dauðin knýr að dyrum er maður alltaf einhvernveginn ekki ekki von á því og er alltaf jafn óviðbúinn. Aribjörn afi er semsé pabbi Hilmars blóðpabba míns, pabba sem ég hef ekki haft mikil samskipti við í gegnum tíðina en alltaf á að gera bragabót á því. Afi var mér alltaf agalega góður og hafði fullt af plássi í hjarta sínu fyrir mig og Alla og mundi alltaf eftir stráknum um jól og afmæli. Hann var síðustu 15 árin af ævi sinni á Hrafnistu og var duglegur við að hannyrðast, mála, sauma og syngja... við eigum nokkur verk eftir hann hérna heima sem hann hefur gaukað að okkur í gegnum tíðina og ætla ég að halda sérlega vel utan um þau, því hann var eini afinn eftir sem ég fékk að kynnast af öllum þeim öfum og ömmum með svona flókin fjölskyldutengsl eins og hjá mér. Jarðaförin var undarleg samblanda af sorg en samt mikilli gleði því í henni hitti ég Halla og Ara bróður en ég hafði aldrei hitt Ara áður. Einnig hittum við konur þeirra og börn og gátum átt smá samverustund yfir kaffibolla og veit ég að afi hefði verið glaður með þetta ef hann hefði verið fluga á vegg. Mér fannst merkilegt að sjá og upplifa hvað ég er lík þeim - gaman að sjá hvað genin spila greinilega mikið með persónuleika manns og sál en ekki bara uppeldið... Nú ætla ég að vera dugleg við að hita kakó og baka smákökur og bjóða þeim í visité og reyna að rækta þessi nýfundnu og gleðilegu fjölskyldutengsl, það þarf ekki að vera neitt spes tilefni til að hittast - bara lífið og tilveran... eins og mér hefur oft verið hugleikið undanfarið þá er tilveran eitt stórt spurningarmerki og maður veit aldrei hvar maður dansar næstu jól - hvað þá hvað morgundagurinn ber í skauti sér...

Elsku afi minn og langafi - minnig hans lifir í hjörtum okkar - gleymum aldrei að vera góð hvert við annað - gleði og hamingja í hjarta er svo miklu betra en nokkuð annað :)