Heppin...

Ég hef alltaf sýnt þunglyndi ótrúlega lítinn skilning, fundist þetta vera aumingjaskapur og ónenna af verstu gerð og hef haft litla sem enga samúð með þeim sem þjáist af þessum sjúkdómi. Að ég tali ekki um aðra geðsjúkdóma - ekkert annað en athyglissýki og sjálfselska af verstu gerð. Sumir vinir mínir detta af og til í djúpan pytt og eiga erfitt með að krafla sig upp úr honum aftur - einn kunningi okkar gat ekki einu sinni (drullast) til að skila inn skattskýrslunni sinni ár eftir ár og fékk áætlanir upp á margar milljónir en hann var heldur ekki (af sjálfsögðu) í neinni vinnu. Allt sökum þess að hann var með svo mikinn verkkvíða og þunglyndi... sem mér fannst óskiljanlegt. Allir vinir mínir frá æskuárunum gengu heilir til skógar og svona geðræn vandamál var bara eitthvað sem fólk úr Breiðholtinu glýmdi við...
... svo brennur svo við að manneskja mér nákomin er með geðsjúkdóm - sem ekkert mikið ber á svona dags daglega... en suma daga er þessi manneskja öðruvísi og hegðunin ekki eins og hún á að sér að vera... og það eru engin látalæti, leti né athyglissýki. Þessi manneskja er með geðsjúkdóm sem litar allt í kringum hana þegar hann nær yfirhendinni, stundum verður allt svart - stundum allt bjart.
Núna er allt bjart - en eiginlega allt of bjart... ég stend hjá og fæ ofbirtu í augun og get lítið gert, nema sýnt stuðnig og vera til staðar. Allir í kringum þessa manneskju verða að vera með sólgleraugu, svo mikið lýsir hún upp allt í kringum sig. Toppnum er náð og lengra kemst engin upp á við... leiðin niður er brött og löng.
Heppin er ég að vera þessi venjulega manneskja sem er með lundargeð eins og hjartalínurit hjá dauðum manni - heppin að þekkja ekkert svona af eigin raun - heppin að reyna að setja mig í þessi spor og þurfa ekki að standa í þeim sjálf...
Verið góð við hvert annað, elsku elskurnar mínar - þið eigið öll einhvern sem þykir vænt um ykkur og ykkur þykir vænt um fullt af fólki - ekki vera hrædd við að sýna það... það gæti verið of seint á morgun. Segðu eitthvað fallegt við fólkið í kringum þig, hældu því eða snertu á einhvern hátt - kannski bjargar þú deginum hjá einhverjum... kannski bara lífinu?
*sjitt, hvað ég er væminn... er n.b. ennþá með Gullu Nóu á brjósti svo ég get skýlt mér að einhverju leyti á bak við truflaða hormónastarfssemi :-)*