N á lífi!
Það er víst löngu kominn tími á smá orðsendingu hingað inn og meira að segja meira til. Lítið að frétta samt - er ennþá ekki komin með neina vinnu og núna er maður ekki kallaður til í nein viðtöl eða neitt, þeir hjá Atvinnumiðluninni hafa ekki einu sinni tíma til að boða mann á fund og ráðgjöf. Maður á að fara einu sinni í mánuði og hitta þau, sýna hvaða vinnur maður er búinn að vera að sækja um og svoleiðis - en ég hef bara einu sinni farið og það var i september - þegar ég inni eftir mínum ráðgjafatíma þá er sagt að þau hafa barasta engan tíma. Svo það er ekkert annað að gera í stöðunni en að bíða bara og sjá hvað gerist handan við hornið. Fór þó í áhugasviðspróf hjá þeim um daginn og komst að því að ég er mun meiri karlmaður en ég hef gefið mig út fyrir að vera, og meira að segja ráðríkur og bossý karlmaður! Ekki góð blanda, fastur inni í hálf miðaldra kerlingu sem hefur ekkert annað að gera en að leika við gullfallega og kornunga stúlku allan daginn :-/ Hummm...
Annars eru jólin víst að koma, einhverjar jólagjafir komnar í hús, einhverjar koma ekki fyrr en korter í jól, smákökur bakaðar og borðaðar, konfektið varla tilbúið því það er líka borðað jafnóðum... á morgun er það jólamyndatakan og svo jólahlaðborð í Perlunni um kvöldið - hlakka ekkert lítið til, enda er ógó langt síðan við Einsi höfum átt kvöldstund saman... það var í júní og þá var ég föst á eyju meðan barnið grét sig í svefn. Á ekki von á neinum vandkvæðum að þessu sinni, enda er barnið orðið eldra og verulega leitt á móður sinni... auk þess sem barnapían er í svo sérstöku uppáhaldi að ég hef sjaldan séð barnið brosa jafn mikið og þegar Heyja okkar er með í för... neinei, ég lýg - hún hlær og skellir upp úr af gleði þegar hún er með Heyju sinni :-)