Elsku Alex Skúli er kominn aftur á spítalann því læknadrullurnar gerðu skelfileg mistök og vangreindu sárin á honum þegar hann var settur í gips. Þeir gleymdu að það voru sár hjá brotinu sem þurftu að anda til að gróa og þar sem hann var settur í plastgips þá greru þau ekki, heldur bara byrjuðu að deyja... og núna er hann kominn aftur á spítalann og verður þar í amk 3 vikur - vona bara að hann komist út fyrir jól - því hvað er verra en að spítalamatur á aðfangadag...? Hann fer líklegast í aðgerð eftir helgi en er meðhöndlaður eins og brunasjúklingur þangað til, plokkað reglulega í sárin og dauð húð fjarlægð. Hann ber sig samt ótrúlega vel, eins og honum er einum lagið og æðruleysið er alveg ótrúlegt hjá þessari elsku, hann er svo mikið yndi og er bara eins og gömul sál í þessum unga brotna kroppi... :-)
Annars réð annað áfall yfir fjölskylduna þann 11. þessa mánaðar, en þá dó afi minn, Arinbjörn Kúld. Hann var orðinn 96 ára gamall svo það mátti alveg búast við þessu, en þegar dauðin knýr að dyrum er maður alltaf einhvernveginn ekki ekki von á því og er alltaf jafn óviðbúinn. Aribjörn afi er semsé pabbi Hilmars blóðpabba míns, pabba sem ég hef ekki haft mikil samskipti við í gegnum tíðina en alltaf á að gera bragabót á því. Afi var mér alltaf agalega góður og hafði fullt af plássi í hjarta sínu fyrir mig og Alla og mundi alltaf eftir stráknum um jól og afmæli. Hann var síðustu 15 árin af ævi sinni á Hrafnistu og var duglegur við að hannyrðast, mála, sauma og syngja... við eigum nokkur verk eftir hann hérna heima sem hann hefur gaukað að okkur í gegnum tíðina og ætla ég að halda sérlega vel utan um þau, því hann var eini afinn eftir sem ég fékk að kynnast af öllum þeim öfum og ömmum með svona flókin fjölskyldutengsl eins og hjá mér. Jarðaförin var undarleg samblanda af sorg en samt mikilli gleði því í henni hitti ég Halla og Ara bróður en ég hafði aldrei hitt Ara áður. Einnig hittum við konur þeirra og börn og gátum átt smá samverustund yfir kaffibolla og veit ég að afi hefði verið glaður með þetta ef hann hefði verið fluga á vegg. Mér fannst merkilegt að sjá og upplifa hvað ég er lík þeim - gaman að sjá hvað genin spila greinilega mikið með persónuleika manns og sál en ekki bara uppeldið... Nú ætla ég að vera dugleg við að hita kakó og baka smákökur og bjóða þeim í visité og reyna að rækta þessi nýfundnu og gleðilegu fjölskyldutengsl, það þarf ekki að vera neitt spes tilefni til að hittast - bara lífið og tilveran... eins og mér hefur oft verið hugleikið undanfarið þá er tilveran eitt stórt spurningarmerki og maður veit aldrei hvar maður dansar næstu jól - hvað þá hvað morgundagurinn ber í skauti sér...
Elsku afi minn og langafi - minnig hans lifir í hjörtum okkar - gleymum aldrei að vera góð hvert við annað - gleði og hamingja í hjarta er svo miklu betra en nokkuð annað :)
Við Alli skelltum okkur til mömmsu í langa helgarheimsókn á meðan Einsi dvelur í góðu yfirlæti í landi bauna og bjórs - það er verið að nota síðasta tækifærið áður en jólastússið byrjar... aðeins mánuður til jóla og svo annar til þangað til litla barnið okkar kemur í heiminn. Merkilegt hvað tíminn flýgur...
Lífið hér gengur út á að vera með stöðuga vörutalningu í ísskápnum, sofa og slaka á - Einsi aftur á móti er að testdræfa jólabjórinn hjá Bjarna og Elvu og sofa út.
Yfir dinnernum áðan var Gulla eitthvað agalega mikið undur skenknum að leika sér eitthvað og vorum við ekkert að spá neitt í því... nema hvað... núna áðan sprettur fram MÚS, svört, lítil og agalega sæt... Gulla af sjálfsögðu tók hana upp í sína arma og lék sér mikið við hana... en Einsi hleypti þeim út á svalir til að svala fýsnum hennar... náði ég broti á myndavélina - þetta er að vísu dökk útgáfa... en ég er bara að spá í hvernig músalingurinn komst hingað inn upp á 2. hæð og ég nýbúin að skúra og moppa alla íbúðina...?
Rakst á þetta myndband, en þarna er maður aflífaður óvart í Kanada með rafstraumi í gær - að mér skilst með samskonar tæki og Byssu-Björn ætlar að leyfa okkar lögreglumönnum að vera með...
Hvernig haldið þið að það endi, þegar undirborgaðar, undirmannaðar, útúrstressaðar og illa þjálfair lögregludrengir fá svona tæki í hendurnar?
... skora á Byssu-Björn að mæta í þær jarðafarir sem koma upp vegna þessa tækis... huxa nefnilega að hann hafi ekki mætt í jarðaförina hjá manninum sem var skotinn í sumar vegna þess að hinn gæinn fékk ,,óvart" byssu selda án þess að vera með byssuleyfi - nokkuð sem Byssu-Björn ætlar að láta bara viðgangast og ekki draga neinn til ábyrgðar...
Þetta barn getur eiginlega ekki svarið af sér móður sína og ennið er víst pabbans samkvæmt Gullu tengdó... Það var agalega gaman að fara svona í 3D sónar, við sáum m.a. hreyfimynd þar sem naflastrengurinn snerti kinnina og þá var sko hausnum snúið til að sjúga... en engin mamma til að gefa brjóst... en það verður ekki lengi í viðbót - er að breytast í geðveika belju með skálar DDY að ég held... :s
Annars er svo mikið um að vera þessa dagana - Alex Skúli snúlla varð fyrir því óláni að láta keyra á sig og var mikið dram á fimmtudaginn þegar það var að ganga yfir. Hann var alveg ótrúlega sterkur strákurinn og sýndi mikinn hug í þessu öllu saman, sama má segja um mömmu hans... en ég hefði verið á öskrunum og endað á geðdeild örugglega ef þetta hefði hent mig... :/ Hann á víst að losna af spítalanum í dag og vona ég að svo verði... þakka bara guði fyrir að ekki fór verr - stundum er lítill engill á öxlum okkar allra :-)
Já, hún Gulla hans Gumma eignaðist heilbirgðan og s t ó r a n dreng rétt fyrir miðnætti í gær - þetta gekk hægar en ráðgert var og var að lokum gripið inn í með aðgerð, enda var hnokkinn rúmar átján merkur og fimmtíuogfimm sentimetrar... ! Ég fékk að gæjast aðeins á þau í dag og hann er svo dásamlega fallegur, sléttur og óendanlega mikið krútt að mjólkin fór næstum að flæða hjá mér... Ætla að kíkja betur á morgun og tek þá myndavélina með.
Önnur Gulla fór á kreik á heimilinu í dag og er aldeilis í essinu sínu þegar hún kemst í svona ... en... en... en... en... Hvar er Gulla...?
Jájá... nú er allt komið á fullt hjá Gullu, enda var hún sett 21. október og herramaðurinn aðeins að láta bíða eftir sér. Gummi er búinn að vera eins og klettur hjá stelpunni, enda get ég rétt svo ímyndað mér hvernig henni líður... fyrsta barn og allt að gera eitthvað svo.. óvænt...
Nú er maður bara með gæsina í hálsinum og krosslagðar lappir og vonar að allt gangi að óskum... set inn fréttir um leið og ég heyri eitthvað :-)
P.s. ég fór sjálf í mæðraskoðun í morgun og á bara að fara að draga úr vinnuni samkv. læknisráði, maður finnur víst mun meira fyrir meðgöngunni ef maður er fjölbyrja... svo er maður náttúrlega ekki lengur 20 ára ...
P.p.s. Samkv. síðusta sms-i frá Gumma var verið að sprengja belginn og allt að gerast... júhú!
Já, 28 viknur komnar á dagatalið og náði bumban þeim sögulega áfanga að skríða í meter í þvermálið en kílóunum hefur ekki fjölgað neitt síðan á 12. viku - svo ég er bara glöð og sæl. Fann þó fyrir miklum harðsperrum í bumbunni í gær og er ég stóð upp komu smá krampar svo ég heyrði í ljósunni. Hún sagði mér að þetta væru samdráttarverkir og ætti ég núna að fara að slaka á. Svo ég gerði það í gær - Gummi Palli bauð okkur Gullu og Einsa á Ruby Tuesday í slæman mat og enn verri þjónustu... en hey - mar þurfti ekki að vaska upp það kvöldið... og slapp við að elda (vondan mat).... :-)
Helgin er svo áætluð í nördaskap í tilefni af Fanfest og afslöppun... Gulla á að fara upp á spítala í dag og kíkja mónitor en henni fannst eitthvað vera að gerast í gær, en barnið er ekki búið að skorða sig og hún komin 12 daga framyfir... hennar verkir fóru semsé óvart á mig en vonandi leiðréttist það í dag :-)